Erfðamál: Þegar andlát ber að garði, hvað þarf ég að vita?

Erfðamál

Þegar andlát ber að garði er í mörg horn að líta. Fyrsta sem þarf að huga að er að tilkynna andlátið til sýslumanns. Skyldan til að tilkynna andlát hvílir á erfingjum hins látna, en ef hann átti enga erfingja þá getur sá sem hann átti heimili með eða sá sem annast útförina tilkynnt andlátið.

Hægt er að tilkynna andlát rafrænt á vefsíðu sýslumanns (Innskráning Ísland.is). Í tilkynningunni þarf að koma fram:

  1. Hverjir eru lögerfingjar hins láta (maki, börn, systkini eða aðrir)
  2. Hvort vitað sé um erfðaskrá eða annan erfðagerning, hvar hann er að finna og hvert er efni hans
  3. Hverjar eru helstu eignir hins látna og hver hefur þær í vörslum sínum
  4. Hvort hinn látni hafi verið í hjúskap eða óvígrði sambúð og hvort hinn látni hafi setið í óskiptu búi eftir maka sinn.

Þá þarf eftir atvikum að framvísa dánarvottorði. Rafræn dánarvottorð berast sýslumannsembættunum sjálfkrafa. Ganga þarf úr skugga um hvort dánarvottorðið hafi borist og ef ekki þarf að leggja það fram. Hafi hinn látni verið erlendis á dánarstundu kann að vera þörf á að fá dánarvottorðið þýtt.

Í kjölfar þessa þarf að taka afstöðu til þess hvernig farið skal um búið. Erfingjar hafa fjóra mánuði til að taka afstöðu til þess.

Ef langlífari maki hyggst sitja í óskiptu búi og eftir atvikum samþykki er fyrir því þarf að skila inn yfirlýsingu þess efnis til sýslumanns. Seta í óskiptu búi felur í raun í sér að skiptum er frestað þar til eftir andlát langlífari maka eða þar til hann ákveður að skipta búinu. Aðeins hjúskaparmakar geta fengið slíka heimild.

Ef búið var eignarlaust (engar eignir umfram útfararkostnað) er unnt að ljúka búi með yfirlýsingu til sýslumanns um eignarleysi búsins. Sýslumaður fer þá yfir framlögð gögn og tekur afstöðu til þess hvort skilyrði séu uppfyllt til að ljúka búi sem eignarlausu. Undir slíkum kringumstæðum bera erfingjar ekki ábyrgð á skuldum hins látna.

Hafi búið átt eignir þarf að taka afstöðu til þess hvort erfingjar ætli að skipta búinu sjálfir í einkaskiptum eða hvort búið skuli fara í opinber skipti.

Í einkaskiptum ábyrgjast erfingjar allar eignir og skuldir hins látna. Leyfi til einkaskipta er fengið með því að skila inn eyðublaði hjá sýslumanni þar sem fram koma allar eignir og skuldir hins látna á dánardegi. Sýslumaður fer yfir beiðnina og ef hann telur skilyrði til einkaskipta uppfyllt þá veitir hann erfingjum leyfi til einkaskipta. Erfingjar geta í kjölfarið komið eignum í verð og gert upp skuldir. Þegar skipti á dánarbúi er lokið er skilað inn erfðafjárskýrslu til álagningar á erfðafjárskatti og eftir atvikum útbúin einkaskiptagerð. Eigi eignir sem þinglýstar voru á hinn látna að taka eigendaskiptum þarf að fylgja erfðaskiptayfirlýsing og henni þarf að þinglýsa í því umdæmi þar sem eignin er. eftir að erfðafjárskattur hefur verið greiddur.

Ef erfingjar eru ekki sammála um að skipta búinu í einkaskiptum fara fram opinber skipti á búinu. Erfingi veitir þá yfirlýsingu um að hann óski ekki eftir einkaskiptum á búinu og óskar sýslumaður þá eftir opinberum skiptum. Hafi leyfi til einkaskipta verið veitt verða erfingjar þó sjálfir að krefjast opinberra skipta við héraðsdóm. Í kjölfar þessa er skipaður skiptastjóri úr hópi lögmanna sem annast skiptin. Undir slíkum kringumstæðum þurfa erfingjar að taka afstöðu til þess hvort þeir ætli að taka ábyrgð á eignum og skuldum hins látna eða hvort um skuldafrágöngu bú sé að ræða.

Hafðu samband fyrir frekari upplýsingar um dánarbússkipti.

author avatar
Elísabet Pétursdóttir
Lögmaður hjá Lögfræðiþjónustu Hafnarfjarðar

Discover more from Lögfræðiþjónusta Hafnarfjarðar

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading